Körfubolti

Tilbúinn að skoða tilboð í Kobe Bryant

Kobe Bryant verður líklega að sætta sig við að spila í Hollywood
Kobe Bryant verður líklega að sætta sig við að spila í Hollywood NordicPhotos/GettyImages

Jerry Buss, eigandi Los Angeles Lakers, segir að allt sé enn opið í sambandi við að skipta hinum ósátta Kobe Bryant í burtu frá félaginu. Bryant sagðist í sumar vilja fara frá Lakers en ekkert varð úr því.

"Ég myndi sannarlega íhuga tilboð sem mér bærust. Maður verður alltaf að gera það - það er bara partur af þessum bransa. Ef einhver er með ósáttan leikmann á sínum höndum verður hann að íhuga möguleika á að skipta honum. Ég veit að Kobe lítur á það sömu augum og ég," sagði Buss.

Slæmt fyrir Lakers

Hann segist hafa verið með nokkur járn í eldinum í sumar og gekk svo langt að bera hugsanlega möguleika á skiptum upp á borð til Kobe Bryant. "Ég átti það til að sýna honum hvaða möguleikar voru í spilunum og sagði við hann "þú veist að þetta kemur Lakers alls ekki vel" - og hann svaraði - "Ég skil það," sagði Buss og benti á þá einföldu staðreynd að það væri mjög erfitt að skipta manni eins og Bryant í burtu.

Erfitt að skipta Bryant

"Þetta er nú einu sinni þannig að lið sem hafa mannskap sem við höfum áhuga á eru yfirleitt að berjast um titilinn sjálf og þau hafa því ekki áhuga á að skipta leikmönnum í burtu. Það sem okkur var boðið í skiptum fyrir Kobe var alveg óhugsandi og ég sagði honum það. Ég sagði honum að ég myndi gera allt sem ég gæti til að verða að óskum hans, en aðeins gegn því að við fengjum sambærilegan mannskap í staðinn - ef sá mannskapur er yfir höfuð til," sagði eigandinn.

Bryant á fjögur ár og tæpar 90 milljónir dollara eftir af samningi sínum við LA Lakers, en hann getur reyndar sagt honum upp sjálfur eftir tvö ár. Lakers liðið hefur ekki náð að vinna seríu í úrslitakeppni síðan Shaquille O´Neal fór frá félaginu árið 2004 eftir að liðið hafði unnið titilinn árin 2001-03.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×