Körfubolti

Friðrik spilar með Njarðvík í kvöld

Friðrik Stefánsson verður með Njarðvíkingum í kvöld
Friðrik Stefánsson verður með Njarðvíkingum í kvöld Mynd/Valli

Miðherjinn Friðrik Stefánsson verður með Njarðvíkingum í kvöld þegar liðið tekur á móti Snæfelli í fyrstu umferð Iceland Express deild karla í körfubolta.

Þegar Vísir náði tali af Friðrik fyrir nokkrum dögum var hann ekki viss hvort hann myndi spila opnunarleikinn og yfir höfuð hvort hann myndi spila á næstunni. Friðrik fór í hjartaþræðingu fyrir skömmu og er undir eftirliti lækna.

Bati Friðriks virðist vera nokkuð góður og í samtali við Vísi nú áðan staðfesti Friðrik að hann ætlaði að spila í kvöld.

"Ég er búinn að taka æfingar með liðinu og þær gengu vel þannig að ég ætla að vera með í kvöld. Ég veit ekki hversu margar mínútur ég spila fyrst um sinn og ég neita því ekki að það er smá spenningur í manni, en það verður gott að byrja að spila aftur. Það góða við það í körfubolta er að það eru 12 menn á skýrslu og því þarf maður ekki að vera að taka frá neinum," sagði Friðrik, sem á von á erfiðum leik gegn Snæfelli í kvöld.

"Deildin verður mjög þétt í vetur því mér sýnist þessi lakari lið í deildinni vera búin að styrkja sig með útlendingum. Það ætlar greinilega enginn að láta valta yfir sig í vetur, en annars er nú deildin eitt og úrslitakeppnin annað," sagði Friðrik.

Fjórir leikir eru á dagskrá IE deildarinnar í kvöld og hefjast allir klukkan 19:15.

Njarðvík - Snæfell

KR - Fjölnir

Hamar - Tindastóll

Þór Ak - ÍR

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×