Körfubolti

Undirbúningurinn gengur illa hjá Lakers

Kobe Bryant á við meiðsli að stríða líkt og margir félagar hans hjá Lakers
Kobe Bryant á við meiðsli að stríða líkt og margir félagar hans hjá Lakers NordicPhotos/GettyImages

Kobe Bryant er nýjasta nafnið á sjúkralista LA Lakers í NBA deildinni en hann meiddist á hendi í æfingaleik gegn Utah Jazz í fyrrinótt. Bryant var þá óðum að ná sér eftir aðgerð á hné.

"Ég er góður í hnénu en höndin á mér er hreint ekki góð," sagði Bryant í samtali við LA Daily News. Hann vonast þó til að geta spilað síðasta æfingaleik liðsins fyrir deildarkeppnina gegn Sacramento á föstudaginn.

Framherjinn Lamar Odom mun missa af fyrstu leikjum liðsins í deildinni eftir aðgerð á öxl og þá hafa miðherjarnir Chris Mihm og Kwame Brown lítið geta spilað vegna meiðsla. Þá á framherjinn Luke Walton enn við smávægileg meiðsli að stríða en gæti náð leiknum á föstudaginn.

"Þetta er búið að vera erfitt hjá okkur því kjarninn í liðinu hefur verið svo mikið frá og við höfum því lítið geta spilað saman. Ungu strákarnir eru allir að læra inn á kerfin og því vonum við allir að menn eins og Lamar Odom verði klárir sem fyrst," sagði Bryant.

Fyrsti leikur LA Lakers á tímabilinu er heimaleikur gegn Houston aðfararnótt næsta miðvikudags, en þá um nóttina verður leikur Golden State og Utah sýndur beint á NBA TV rásinni á Fjölvarpinu.

Kvöldið eftir verður svo tvíhöfði í beinni á stöðinni þar sem Memphis tekur á móti meisturum San Antonio í kring um miðnættið og þar beint á eftir verður sýnt beint frá leik Denver og Seattle.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×