Körfubolti

Phoenix skellti Cleveland

Steve Nash
Steve Nash NordicPhotos/GettyImages

Góður seinni hálfleikur tryggði Phoenix Suns 103-92 sigur á Cleveland í NBA deildinni í nótt en heimamenn voru án Amare Stoudemire sem hvíldi lúið hné í nótt. Miami Heat er enn án sigurs.

Steve Nash tók til sinna ráða og skoraði 30 stig og gaf 10 stoðsendingar í sigri Phoenix á Cleveland og Shawn Marion skoraði 23 stig og hirti 12 fráköst. LeBron James skoraði 27 stig fyrir Cleveland, Drew Gooden skoraði 22 stig (14 fráköst) líkt og Zydrunas Ilgauskas (13 fráköst).

Boston vann nauman útisigur á Toronto eftir framlengdan leik 98-95 þar sem þristur frá Ray Allen gerði út um leikinn. Allen skoraði 33 stig í leiknum og Kevin Garnett 23 stig og hirti 13 fráköst. TJ Ford skoraði 32 stig fyrir Toronto.

Miami tapaði enn einum leiknum þegar liðið lá fyrir Charlotte á heimavelli 90-88 og hefur byrjað leiktíðina 0-3. Jason Richardson skoraði 29 stig fyrir Charlotte en Udonis Haslem skoraði 18 stig og hirti 10 fráköst fyrir Miami. Næstu tveir leikir Miami í deildinni eru gegn San Antonio og Phoenix.

New York vann sigur í opnunarleik sínum á heimavelli í fyrsta skipti í fimm ár þegar liðið lagði Minnesota 97-93, Jamal Crawford skoraði 24 stig fyrir New York en Ryan Gomes skoraði 19 fyrir Minnesota.

Detroit vann nauman heimasigur á Atlanta 92-91 þar sem Chauncey Billups tryggði heimamönnum sigur með vítakasti í blálokin. Billups var stigahæstur hjá Detroit með 22 stig, en Rip Hamilton lék með liðinu í fyrsta sinn á leiktíðinni eftir að hafa misst af fyrstu tveimur leikjunum vegna barnsburðar. Joe Johnson var atkvæðamestur hjá Atlanta með 23 stig.

New Orleans byrjar leiktíðina vel líkt og í fyrra og í nótt skellti liðið Denver 93-88 á útivelli. David West var lengi í gang en skoraði 17 stig fyrir New Orleans og Chris Paul skoraði 15 stig, gaf 11 stoðsendingar og hirti 8 fráköst. Allen Iverson skoraði 23 stig og gaf 8 stoðsendingar hjá Denver, Carmelo Anthony 20 og Marcus Camby hirti 21 frákast - annan leikinn í röð.

Seattle tapaði þriðja leik sínum í röð þegar það lá fyrir LA Clippers 115-101 þar sem Corey Magette skoraði 27 stig fyrir Clippers en nýliðinn Kevin Durant 24 fyrir Seattle.

Loks vann LA Lakers góðan heimasigur á Utah 119-109. Kobe Bryant skoraði 33 stig fyrir Lakers og Derek Fisher 19. Deron Williams skoraði 26 stig fyrir Utah og Carlos Boozer skoraði 23 stig og hirti 12 fráköst fyrir Utah.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×