Körfubolti

Terry fór fyrir Dallas í sigri á Houston

Jason Terry fagnar einum af körfum sínum á lokasprettinum í nótt
Jason Terry fagnar einum af körfum sínum á lokasprettinum í nótt NordicPhotos/GettyImages

Aðeins einn leikur var á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt þar sem Texas-liðin Dallas og Houston áttust við. Varamaðurinn Jason Terry hjá Dallas leiddi sitt lið til 107-98 sigurs með frábærri innkomu af bekknum.

Terry skoraði 31 stig í leiknum í nótt og þar af var mikil rispa í lok þriðja og upphafi fjórða leikhlutans þegar þeir Dirk Nowitzki og Josh Howard voru á varamannabekknum í villuvandræðum.

Terry hefur verið byrjunarliðsmaður meira og minna allan sinn átta ára feril í NBA deildinni, en var reyndar ofurvaramaður þegar hann lék í Háskóla.

Dirk Nowitzki skoraði 19 stig og hirti 9 fráköst fyrir Dallas, Josh Howard skoraði 21 stig og DeSagana Diop skoraði 10 stig, hirti 13 fráköst. Þá skoraði Jerry Stackhouse 16 stig á 33. afmælisdegi sínum.

Þetta var fyrsta tap Houston á leiktíðinni eftir að liðið hafði unnið fyrstu þrjá leikina og því eru Houston og Dallas bæði með 3-1 árangur það sem af er.

Tracy McGrady, sem í gærkvöld var valinn leikmaður vikunnar í Vesturdeildinni, skoraði 35 stig fyrir Houston og Yao Ming skoraði 21 stig og hirti 11 fráköst. Það var þó ekki nóg til að hindra fyrsta tap Rick Adelman með Houston liðið.

Tíu leikir eru á dagskrá í NBA í nótt og þar af verður leikur Chicago og LA Clippers sýndur beint á NBA TV klukkan 01:30 eftir miðnættið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×