Körfubolti

Outlaw tryggði Portland sigur á flautukörfu

Leikmenn Portland höfðu ástæðu til að fagna í leikslok
Leikmenn Portland höfðu ástæðu til að fagna í leikslok NordicPhotos/GettyImages

Sex leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Travis Outlaw var hetja Portland þegar hann tryggði liði sínu 106-105 útisigur á Memphis með skoti um leið og leiktíminn rann út.

Brandon Roy var besti maður Portland í leiknum með 26 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar, LeMarcus Aldridge skoraði 23 stig og Outlaw 21. Rudy Gay og Mike Miller skoruðu 30 stig hvor fyrir Memphis og Pau Gasol 14 stig og hirti 15 fráköst.

Orlando hélt áfram sigurgöngu sinni á útivöllum með því að stöðva sex leikja sigurgöngu Golden State í framlengdum leik 123-117. Stephen Jackson skoraði 25 stig fyrir Golden State, Monta Ellis skoraði 22 stig, hirti 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Baron Davis skoraði 19 stig og gaf 9 stoðsendingar. Jameer Nelson skoraði 22 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir Orlando, Keith Bogans skoraði 22 stig og Dwight Howard skoraði 18 stig, hirti 23 fráköst og varði 7 skot.

Atlanta skellti Philadelphia á útivelli 88-79. Josh Smith skoraði 22 stig fyrir Atlanta en Willie Green skoraði 23 stig fyrir Philadelphia, sem hafði unnið sjö síðustu leiki sína gegn Atlanta.

Undirmannað lið Toronto lagði Charlotte á heimavelli 98-79. Carlos Delfino og Kris Humphries skoruðu 17 stig hvor af bekknum hjá Toronto en Gerald Wallace skoraði 19 stig fyrir Charlotte og Jared Dudley skoraði 16 stig og hirti 10 fráköst.

Dallas lagði Chicago á útivelli 103-98 og færði Chicago þar með 11 tapið í fyrstu 15 leikjum sínum. Josh Howard var bestur í liði Dallas með 27 stig og 10 fráköst og Dirk Nowitzki skoraði 25 stig. Argentínumaðurinn Andres Nocioni skoraði 30 stig fyrir heimamenn, þar af 15 á vítalínunni.

Loks vann Utah áttunda heimaleikinn sinn í röð með því að skella Miami 110-101. Dwyane Wade skoraði 26 stig og gaf 10 stoðsendingar hjá Miami og Jason Williams og Ricky Davis skoruðu 15 stig. Mehmet Okur skoraði 25 stig fyrir Utah, Carlos Boozer skoraði 24 stig og hirti 15 fráköst og Deron Williams skoraði 24 stig og gaf 15 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×