Körfubolti

Knicks er enn verðmætasta félagið í NBA

New York er verðmætasta félagið í NBA þrátt fyrir skelfilegt gengi liðsins
New York er verðmætasta félagið í NBA þrátt fyrir skelfilegt gengi liðsins NordicPhotos/GettyImages

Forbes hefur nú birt lista sinn yfir verðmætustu félögin í NBA deildinni og þar situr New York Knicks í efsta sæti þrátt fyrir ólgutíð undanfarin ár. Knicks er líka með mestu veltuna í deildinni, en hagnaður þess hefur þó snarminnkað milli ára.

Félagið er metið á 604 milljónir dollara eða rúma 37 milljarða króna. Veltan á árinu var rúmir 12 milljarðar en tekjur þess drógust saman um 2,6 milljarða á tímabilinu. Heildarútkoma félagsins var samt nokkru betri en árið áður.

LA Lakers er næst verðmætasta félagið í deildinni samkvæmt Forbes og er metið á tæpa 35 milljarða - niður um tvö prósent frá síðustu könnun, Chicago er metið á 31 milljarð, Detroit á 29,5 milljarða og Houston er fimmta verðmætasta félagið á 28,5 milljarða - hársbreidd á undan grönnum sínum í Texas sem eru heldur á niðurleið.

Portland er ódýrasta félagið í deildinni ef marka má listann og er það metið á ríflega 15,6 milljarða. Í sætunum fyrir ofan Portland á botninum koma svo Milwaukee, Seattle, New Orleans, Atlanta og Charlotte.

Cleveland var hástökkvarinn á lista 10 efstu og jókst verðmæti félagsins um 20% í 28 milljarða, sem að miklu leiti má skrifast á það að liðið fór í úrslitaeinvígið í sumar sem leið.

Verðmæti Dallas minnkaði um 15% og féll liðið úr þriðja sæti listans niður í það sjötta, en mikil uppsveifla var hjá liðinu árið á undan þegar það fór í úrslitin.

Þó New York sé á toppi listans yfir verðmætustu félögin í NBA, er það enn í órafjarlægð frá ríkustu liðunum í NFL deildinni þar sem það kæmist ekki inn á lista 10 verðmætustu félaganna.

Þar er Dallas Cowboys talið verðmætasta félagið á 1,5 milljarð dollara, eða tæpa 93 milljarða króna og félagið í 10. sæti listans - New York Jets - er metið á rétt tæpa 60 milljarða.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×