Njósnamálinu ljóta í Formúlu 1 lauk formlega í dag þegar yfirmenn Alþjóða Akstursíþróttasambandsins tóku afsökunarbeiðnir og fögur loforð McLaren góð og gild. McLaren fær því að keppa á næsta móti og óvissu í kring um það er lokið.
Akstursíþróttasambandið frestaði á dögunum að birta niðurstöður sínar í rannsókn málsins eftir að McLaren liðið baðst afsökunar og viðurkenndi að gögn frá Ferrari hefðu verið mun útbreiddari í herbúðum sínum en fyrst var talið.
Það var Max Mosley forseti Akstursíþróttasambandsins sem fór fram á að málinu yrði vísað frá og sú beiðni hefur nú verið samþykkt. Málið setti svartan blett á annars frábært keppnistímabil í Formúlu 1 á síðustu vertíð.