Körfubolti

Blikar segja upp erlendum leikmönnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darrell Flake, fyrrum leikmaður ÍR.
Darrell Flake, fyrrum leikmaður ÍR. Mynd/E. Stefán

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur ákveðið, rétt eins og ÍR og Snæfell, að segja upp samningum þeirra erlendu leikmanna sem eru á mála hjá félaginu. Hér ræðir um þá Darrel Flake og Igor Beljanski.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem deildin sendi frá sér í morgun en í gær funduðu forystumenn félaganna um stöðu mála í íslenskum körfubolta.

Hér má lesa fréttatilkynninguna:

„Eins og öllum landsmönnum er kunnugt rær nú íslenskt fjármálakerfi og efnahagslíf lífróður. Við slíkt efnahagslegt umrót er nauðsynlegt að endurskoða allar áætlanir og fjárhagslegar skuldbindingar. Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur verið rekin á undanförnum árum af ábyrgð og gert raunhæfar áætlanir sem hafa staðist. Vegna núverandi aðstæðna er með öllu óraunhæft að standa við gerða samninga við erlenda leikmenn. Jafnframt verða öll önnur útgjöld rækilega endurskoðuð.

Í ljósi aðstæðna sér körfuknattleiksdeildin ekki annað fært en að segja upp samningum við erlenda leikmenn liðsins, Darrel Flake og Igor Beljanski og munu þeir hætta með liðinu strax. Báðum er þeim þakkað framlag sitt til liðsins en þeir féllu mjög vel inn í liðið og hópinn sem gerir þessa ákvörðun enn erfiðari. Ekki má þó gleymast að liðið hefur á að skipa góðum íslenskum leikmönnum sem skilja vel stöðu mála og munu bera uppi leik liðsins í vetur. Það kemur alltaf maður í manns stað.

Það er einróma mat stjórnar körfuknattleiksdeildarinnar að bregðast strax við og af ábyrgð til að tryggja öflugt og blómlegt starf deildarinnar til framtíðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×