Körfubolti

Stjarnan í samningaviðræðum við Justin Shouse

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Justin Shose í leik með Snæfelli á síðasta keppnistímabili.
Justin Shose í leik með Snæfelli á síðasta keppnistímabili. Mynd/Anton

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar á nú í samningaviðræðum við Justin Shouse um að hann haldi áfram að spila með liðinu í vetur.

Í gærkvöldi ákvað stjórn deildarinnar á fundi sínum að segja upp samningi við Nemanja Sovic eins og svo mörg önnur félög í Iceland Express-deild karla hafa gert síðustu daga við sína erlendu leikmenn.

Justin Shouse er hinn útlendingurinn í Stjörnunni og ákvað stjórnin að reyna að semja við hann upp á nýtt. Þetta staðfesti Gunnar Sigurðsson, formaður deildarinnar, í samtali við Vísi.

„Justin þjálfar bæði yngri flokka hjá okkur auk þess sem hann er að vinna sem kennari í Hástaðaskóla. Það væri því mjög slæmt fyrir okkur að missa hann úr starfinu. Við eigum von á niðurstöðu í kvöld."

Stjarnan hefur einnig ákveðið að reyna að endursemja við Jovan Zdravevski en hann er með íslenskan ríkisborgararétt.

„Aðrir leikmenn fá ekki greitt fyrir að spila körfubolta. Sumir þjálfa yngri flokkana og fá greitt fyrir það. Í fyrra fengu menn bónusgreiðslur í lok tímabils sem miðaði við árangur en það er mjög ólíklegt að það verði einnig svo í ár."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×