Erlent

Þekktar einvígisskammbyssur eru ekki úr loftsteinsjárni

Þekktar 200 ára gamlar einvígisskammbyssur eru ekki smíðaðar úr járni úr loftsteini eins og áður var talið. Ný rannsókn leiðir þetta í ljós en um leið verður uppruni þessara byssa dularfyllri.

Það var fjórði forseti Bandaríkjanna, James Madison, sem upphaflega fékk byssur þessar að gjöf frá hershöfðingja í Argentínu. Fylgdi þá með saga um að byssurnar væru smíðaðar úr járni loftsteins sem féll til jarðar í Campo del Cielo í Argentínu.

Eftir lát Madison komust byssur þessar í eigu fimmta forseta Bandaríkjanna, James Monroe og urðu síðan hluti af safni sem tileinkað var honum.

Hingað til hefur enginn borið birgður á það að byssurnar hafi verið smíðaðar úr loftsteinsjárni. Nú rannsókn sýnir að svo er ekki.

Byssurnar voru rannsakaðar í svokölluðum neutron-skanna í Oxford á Bretlandi og bornar saman við sýnishorn úr loftsteinabroti frá Campo del Cielo. Í ljós kom að um ólík efni var að ræða.

Niðurstöðurnar eru töluvert áfall fyrir umsjónarmenn James Monroe safnsins. Fyrir utan að vera ekki úr loftsteinjárni kom í ljós að skeftin á byssunum eru ekki úr silfri eins og áður var haldið heldur látúni. Og hér verður málið dularfullt.

Látúnsblandan sem skeftin eru úr fannst aðeins í suðausturhluta Asíu á þeim tíma sem byssurnar voru smíðaðar. Helst er talið að hershöfðinginn sem upphaflega gaf Madison byssurnar hafi verið blekktur um uppruna þeirra.

Annar möguleiki er sá að þessar byssur séu ekki þær sem Madison fékk upphaflega heldur eftirlíkingar að þeim. Í bréfi sem hershöfðinginn skrifaði til Madison og fylgdi með byssunum á sínum tíma er þriðja byssan af sömu gerð nefnd til sögunnar.

Forráðamenn safnsins eru nú að reyna að hafa uppi á þriðju byssunni til að varpa ljósi á málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×