Körfubolti

Boston vann nauman sigur á Cleveland í fyrsta leik

Deildarmeistarar Boston Celtics unnu í nótt nauman 76-72 sigur á Cleveland í fyrsta leik liðanna í annari umferð úrslitakeppninnar í NBA deildinni. Harður varnarleikur og barátta einkenndi leikinn og voru flestar stórstjörnunar langt frá sínu besta í sóknarleiknum.

Lið Cleveland á eflaust eftir að líta til baka og naga sig í handabökin yfir þessum fyrsta leik ef liðið tapar einvíginu, því liðið var í góðri stöðu til að vinna leikinn.

LeBron James átti einn versta leik sinn á ferlinum í sókninni og hitti aðeins 2 af 18 skotum utan af velli og tapaði 10 boltum. Hann fékk nokkur góð færi til að skora á síðustu andartökum leiksins, en boltinn vildi einfaldlega ekki ofan í körfuna.

James hirti 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í leiknum, en Zydrunas Ilgauskas var atkvæðamestur í Cleveland með 22 stig og 12 fráköst.

Tölfræði leiksins

Stórstjörnur Boston voru heldur ekki í essinu sínu í gær ef undan er skilinn Kevin Garnett sem skoraði 28 stig og hirti 8 fráköst. Paul Pierce hitti aðeins úr 2 af 14 skotum sínum og endaði með 4 stig og Ray Allen komst ekki á blað. Þetta var í fyrsta skipti síðan árið 1997 sem Allen skorar ekki stig í leik í NBA - eða í 852 leiki.

"Þetta var eins og tveir þungavigtarboxarar að lumbra á hvor öðrum. Það voru engar stungur eða krúsídúllur í þessum leik - þetta var bara harður varnarleikur og slagsmál," sagði Kevin Garnett hjá Boston.

LeBron James var ósáttur við eigin frammistöðu í leiknum, en hann hefur aðeins einu sinni áður á ferlinum skorað færri körfur utan af velli í leik í deildinni.

"Ég klikkaði á mörgum skotum sem ég veit að ég get sett niður," sagði James og horfði ringlaður á tölfræðiskýrsluna eftir leikinn. "Ég var að klikka á sniðskotum - sniðskotum sem ég hef sett niður alla ævi."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×