Körfubolti

Chris Paul framlengir við Hornets

Chris Paul átti stórkostlega leiktíð í vetur sem leið
Chris Paul átti stórkostlega leiktíð í vetur sem leið NordcPhotos/GettyImages

Leikstjórnandinn Chris Paul hefur skrifað undir nýjan samning við New Orleans Hornets í NBA deildinni. Samningurinn tekur gildi eftir næsta tímabil, er til þriggja ára með möguleika á fjórða árinu og greiðir honum ríflega fimm milljarða króna í tekjur.

Paul sprakk út á sínu þriðja ári í deildinni síðasta vetur. Hann skoraði rúmt 21 stig að meðaltali í leik og leiddi deildina í stoðsendingum (11,6) og stolnum boltum (2,7).

Frammistaða hans tryggði honum sæti í hans fyrsta stjörnuleik og þá er hann í landsliði Bandaríkjanna fyrir Ólympíuleikana.

New Orleans kom liða mest á óvart í deildinni síðasta vetur og margir vilja meina að góður leikur Paul hafi ekki aðeins verið lykillinn að velgengni liðsins heldur orðið til þess að halda lífi í körfuboltanum í borginni eftir hamfarirnar þegar fellibylurinn Katrín gekk yfir svæðið fyrir tæpum þremur árum.

Þannig hafa þegar verið seldir meira en 5,000 fleiri ársmiðar á leiki Hornets næsta vetur ofan á þá ríflega 5,000 sem þegar voru fráteknir frá síðasta vetri.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×