Landsliðskonan unga Sara Björk Gunnarsdóttir hjá Haukum hefur gengið í raðir Breiðabliks í Landsbankadeildinni á lánssamningi út leiktíðina.
Sara er aðeins 17 ára gömul en er þrátt fyrir ungan aldur orðin lykilmaður í íslenska landsliðinu. Hún er uppalin í Haukaliðinu en hefur verið eftirsótt af toppliðum Landsbankadeildarinnar. Hún segist hlakka til að takast á við nýja áskorun í Landsbankadeildinni.
"Þessi lið komu öll til greina en á endanum valdi ég Breiðablik. Ég hafði bara á tilfinningunni að ég passi best inn í það lið og nái þar að njóta mín betur. Það er erfitt að fara frá Haukaliðinu en þetta er auðvitað bara lánssamningur til að byrja með," sagði Sara Björk í samtali við Vísi.
Hún reiknar með að þurfa að berjast fyrir sínu þegar hún kemur inn í nýtt lið. "Þetta er mjög öflugur hópur og ég mun þurfa að vinna fyrir minni stöðu. Þetta er ungt og efnilegt lið," sagði Sara.