Körfubolti

Erlendir leikmenn Keflavíkur sendir heim

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jesse Pelot-Rosa og Steven Gerrard.
Jesse Pelot-Rosa og Steven Gerrard. Mynd/E. Stefán

Nú hefur meirihluti félaga í Iceland Express deild karla gripið til aðgerða vegna fjárhagskreppunnar hér á landi. Keflavík hefur ákveðið að senda sína erlendu leikmenn heim á leið.

Um er að ræða Bandaríkjamennina Jesse Pelot-Rosa og Steven Gerrard í karlaliðinu en sá síðarnefndi er einnig með ítalskt vegabréf. Þá hefur TaKesha Watson, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur, einnig farið sömu leið.

Þetta kom fram á heimasíðu Keflavíkur í dag en Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Vísi í gær að þessi niðurstaða blasi við félaginu.

Snæfell, Breiðablik, ÍR, Njarðvík, Skallagrímur og Stjarnan hafa farið þessa leið og búist er við því að Þór sendi tvo af sínum erlendu leikmönnum heim í kvöld.

FSu mun ekki breyta sínum leikmannahópi og þá er beðið þess hvað Grindavík og KR gera í sínum málum. Tindastóll hefur ekki hug á að senda sína þrjá erlenda leikmenn heim eins og málin standa nú.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×