Körfubolti

James útilokar ekki að fara frá Cleveland

LeBron James er eftirsóttasti körfuboltamaður heimsins
LeBron James er eftirsóttasti körfuboltamaður heimsins AFP

Ofurstjarnan LeBron James hjá Cleveland Cavaliers í NBA deildinni segist ekki geta lofað því að hann muni semja við lið sitt á ný árið 2010 þegar samningur hans rennur út.

Fjölmiðlamenn í Bandaríkjunum hafa mikið reynt að þröngva James til að gefa svar með framtíðina, en hann hefur hingað til gefið frekar loðin svör.

"Maður verður að hugsa um sinn hag og sinn feril. Ég legg mig allan fram á hverju kvöldi fyrir þetta lið - og það er hollusta í mínum huga," sagði James þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að sýna heimaliði sínu hollustu og semja við það á ný.

James á enn tvö ár eftir af samningi sínum en því hefur lengi verið haldið fram að hann myndi leita annað ef honum þætti Cleveland ekki vera með lið sem hefði burði til að keppa um meistaratitilinn.

"Bransinn er þannig að ef leikmaður fer frá félagi sínu, lítur hann oft illa út. Enginn segir hinsvegar neitt þegar félögin losa sig við leikmenn. Menn verða því að hugsa um hvað er þeim fyrir bestu. Í augnablikinu hugsa ég ekki um neitt annað en liðið mitt og að vinna titil með því," sagði James.

Hann varð í nótt sem leið yngsti leikmaðurinn í sögu NBA til að skora 11,000 stig á ferlinum, en hann er enn ekki orðinn 24 ára gamall.

James er almennt talinn einn besti ef ekki besti leikmaður deildarinnar og skorar 30 stig, hirðir 8 fráköst og gefur 7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Talið er víst að mörg af liðum deildarinnar séu nú þegar farin að undirbúa sig undir að gera honum risatilboð þegar hann losnar undan samningi eftir tvö ár.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×