Körfubolti

Hvaða lið komast í úrslitakeppni NBA?

Denver-menn eru í góðri stöðu í Vesturdeildinni
Denver-menn eru í góðri stöðu í Vesturdeildinni NordcPhotos/GettyImages

Denver vann í nótt gríðarlega mikilvægan sigur á Golden State í baráttu liðanna um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni í NBA.

Denver hefur nú pálmann í höndunum eftir þennan mikilvæga útisigur og Golden State þarf að treysta á að Denver tapi amk tveimur af síðustu þremur leikjum sínum til að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

Denver hefur unnið 48 leiki og tapað 31 og situr sem stendur í 8. sætinu. Golden State hefur unnið 47 leiki og tapað 32 og munurinn er því einn leikur.

Hann er þó ívið meiri en það, því Denver hafði betur í innbyrðisviðureignum liðanna í vetur sem þýðir að Denver hirðir sætið í úrslitakeppninni ef liðin enda jöfn. Það er því ljóst að Golden State má alls ekki misstíga sig í þeim leikjum sem eftir eru.

Bæði lið eiga þrjá leiki eftir í deildinni.

Denver mætir Utah á útivelli á laugardagskvöldið, Houston heima á sunnudagskvöldið og lýkur keppni með heimaleik á móti Memphis á miðvikudagskvöld.

Golden State á næst leik við Clippers á heimavelli annað kvöld, sækir svo Phoenix heim á mánudagskvöldið og tekur á móti Seattle í lokaleik sínum á heimavelli.

Indiana á enn von 

Svipuð staða er uppi á teningnum í baráttunni í Austurdeildinni þar sem Atlanta og Indiana berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni og það óöfundsverða hlutskipti að mæta Boston í fyrstu umferð.

Atlanta situr í áttunda sætinu með 36 sigra og 42 töp og Indiana í níunda með 34 sigra og 44 töp. Atlanta gat tryggt sér sæti í úrslitakeppninni þegar liðin mættust á dögunum en þar hafði Indiana betur og hélt enn í vonina um áttunda sætið.

Atlanta mætir New York á útivelli í kvöld, Boston á heimavelli annað kvöld og á svo eftir heimaleik við Orlando og útileik við Miami á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku.

Indiana sækir Philadelphia heim í nótt, tekur á móti Charlotte annað kvöld, sækir Washington heima á mánudagskvöldið og tekur svo á móti New York heima í lokaleiknum á miðvikudagskvöld.

Smelltu hér til að sjá stöðuna í Austur- og Vesturdeildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×