Körfubolti

Boston valtaði yfir Atlanta

Kevin Garnett og félagar skelltu í lás í vörninni í kvöld
Kevin Garnett og félagar skelltu í lás í vörninni í kvöld NordcPhotos/GettyImages

Deildarmeistarar Boston Celtics urðu nú í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar í NBA þegar liðið rótburstaði Atlanta 99-65 í sjöunda leik liðanna í Boston.

Leikurinn í kvöld var aldrei spennandi frekar en hinir þrír leikirnir sem fram fóru í Boston í einvíginu og segja má að úrslit leiksins hafi verið ráðin í hálfleik þegar heimamenn höfðu 44-26 forystu.

Paul Pierce skoraði 22 stig og hirti 8 fráköst fyrir Boston í leiknum og Kevin Garnett skoraði 18 stig og hirti 11 fráköst. Joe Johnson var langstigahæstur í arfaslöku liði Atlanta með 16 stig, en liðið var einfaldlega aldrei tilbúið í oddaleikinn í kvöld.

Tölfræði leiksins

Eins og sjá má á tölfræðinni var það ógnarsterkur varnarleikur heimamanna sem skóp sigurinn.

"Við kláruðum málið á heimavelli - það er mjög erfitt að koma hingað og mæta vörninni sem við spilum hérna," sagði Kevin Garnett í viðtali á NBA TV strax eftir leikinn.

Boston verður með heimavallarrétt alla leið í lokaúrslit ef liðið kemst þangað, en það lenti í bullandi vandræðum með frískt lið Atlanta í fyrstu umferðinni - lið sem enginn þorði að spá nema í mesta lagi einum sigri í einvíginu fyrirfram.

Boston mætir LeBron James og félögum í Cleveland í næstu umferð úrslitakeppninnar, en einvígin í annari umferð má sjá hér fyrir neðan, þar sem tveimur leikjum er reyndar þegar lokið:

Vesturdeild:

New Orleans (1) - San Antonio (0)

LA Lakers - Utah (fyrsti leikur nú í kvöld)

Austurdeild:

Boston - Cleveland

Detroit (1) - Orlando (0)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×