Körfubolti

Ákvað að sitja lengur en Ferguson

Sigurður Ingimundarson verður áfram í Keflavík
Sigurður Ingimundarson verður áfram í Keflavík Mynd/Vilhelm

Sigurður Ingimundarson þjálfari segir spennandi tíma fram undan í Keflavík og segir það helstu ástæðuna fyrir því að hann framlengdi samning sinn við félagið í gær.

Sigurður lagðist undir feld eftir að Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar fyrir nokkru og sagðist ætla að íhuga framtíðina í rólegheitum. Hann hefur verið lengi við stjórnvölinn í Keflavík, en hefur sannarlega ekki sagt sitt síðasta.

"Ég var nú bara að hugsa um hvort maður væri búinn að vera of lengi í þessu, en svo ákvað ég að reyna að vera lengur en Alex Ferguson," sagði Sigurður í léttum tón í samtali við Vísi í morgun.

"Það eru spennandi tímar fram undan hjá okkur. Það er búið að ganga vel og menn hérna eru stórhuga og vilja fara lengra með þetta. Karfan er að fara á hærra plan og það er mikil körfuboltastemming hérna í Keflavík," sagði Sigurður.

"Það er gaman að vinna titla, en það er líka gaman að byggja upp lið sem er alltaf að keppa um titla og er stöðugt. Við viljum líka hafa það í bakhöndinni að gera betri hluti í Evrópukeppni því við teljum okkur vera fullfæra um það. Við erum ekki búnir að taka neina ákvörðun um Evrópukeppni núna, en við viljum hafa það í bakhöndinni," sagði Sigurður.

Hann segir það hafa spilað inn í ákvörðun sína hvernig færi með leikmannamálin hjá Keflavík, en félagið framlengdi samninga við sjö leikmenn í gær - þar af lykilmenn eins og Jón Norðdal Hafsteinsson og Þröst Leó Jóhannsson.

"Það er auðvitað mikilvægt að halda í lykilleikmenn og við erum með nokkra unga og efnilega leikmenn sem munu koma meira inn í þetta á næstu árum," sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×