Körfubolti

Fyrrum NBA-stjarna lamaðist í fjórhjólaslysi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rodney Rogers í leik með Philadelphia árið 2005.
Rodney Rogers í leik með Philadelphia árið 2005. Nordic Photos / Getty Images
Körfuknattleiksmaðurinn Rodney Rogers slasaðist illa í fjórhjólaslysi nálægt heimabæ sínum í Norður-Karólínu fylki með þeim afleiðingum að hann lamaðist frá öxlum og niður úr.

Rogers lék í tólf ár í NBA-deildinni og þar áður með háskólaliði Wake Forest. Það var Dave Odom, fyrrum þjálfari Rogers hjá Wake Forest, sem greindi frá þessu.

Rogers var kosinn besti sjötti leikmaður NBA-deildarinnar tímabilið 1999-2000 er hann lék með Phoenix Suns.

Rogers ólst upp í bænum Durham þar sem hann býr nú. Síðan hann hætti að spila körfubolta hefur hann unnið í byggingarvinnu þar sem hann starfaði við stórar vinnuvélar. Hann fékk stöðuhækkun í sínu starfi fyrir hálfu ári síðan.

Hann hefur einnig verið að þjálfa stúlknalið í körfubolta í sjálfboðaliðastarfi í skóla einum í bænum.

Samkvæmt lögfræðingi Rogers skortir hann ekkert hvað fjárhag varðar en finnst einfaldlega gaman að vinna við vinnuvélar. Lögfræðingurinn sagði einnig að hann væri mikil útivistarmanneskja sem hefði gaman af því að veiða, keyra mótorhjól og ríða út.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×