Fótbolti

Stuðningsmenn græða vel á Veigari - líka einn hundur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll reyndist ansi góð fjárfesting fyrir marga.
Veigar Páll reyndist ansi góð fjárfesting fyrir marga. Mynd/Scanpix
Þegar Veigar Páll Gunnarsson var keyptur til Stabæk var stofnaður fjárfestingarsjóður til að fjármagna kaup hans frá KR. Þessir fjárfestar fá nú peninginn fimm- eða sexfalt til baka nú þegar Veigar er á leið til Frakklands.

Fram kemur á heimasíðu Stabæk að 79 einstaklingar, einn hundur og eitt stuðningsmannafélag lögðu fé í sjóðinn sem þeir fá nú ríflega endurgreiddan til baka.

„Þetta er frábært dæmi um hvernig fólk í samfélaginu getur tekið höndum saman þar sem útkoman er bæði skemmtileg og efnahagslega hagkvæm," segir á heimasíðu Stabæk.

„Í hópnum má finna barn sem tæmdi sparibaukinn sinn og gamlar frænkur sem tóku fram þúsundkallana úr kökukrúsunum sínum í eldhúsinu, allt til að hjálpa félaginu sínu að kaupa leikmann sem við höfðum trú á."

Fjárfestingarsjóðnum var komið á stofn fyrir fimm árum og á hann níu prósenta hlut í Veigari. Alls söfnuðust 115 þúsund norskar krónur í sjóðinn sem dugðu ekki fyrir heildarupphæðinni sem Veigar kostaði. Samkvæmt norskum fjölmiðlum var Veigar seldur til franska liðsins Nancy í vikunni fyrir rúmar 15 milljónir norskra króna.

Stuðningsmannafélagið Altas skaut inn 100 norskum krónum í sjóðinn á sínum tíma og sagði talsmaður félagsins að þær kæmu sér vel.

„Þetta er aldeilis fínt. Við getum keypt okkur nokkra kassa af léttöli fyrir peninginn," sagði einn meðlimur félagsins í samtali við norska fjölmiðla.

Hérna má sjá lista yfir upphaflegu fjárfestana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×