Körfubolti

Lakers vann fyrsta leikinn gegn Utah

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pau Gasol og Kobe Bryant voru öflugir í liði Lakers í kvöld.
Pau Gasol og Kobe Bryant voru öflugir í liði Lakers í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
LA Lakers er komið með 1-0 forystu gegn Utah í rimmu liðanna í annarri umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

LA Lakers byrjaði betur í leiknum og komst í sautján stiga forystu í öðrum leikhluta. En Utah neitaði að gefast upp og náði að minnka muninn í fjögur stig í fjórða leikhluta.

Pau Gasol skoraði átta af sínum átján stigum undir lok leiksins er Lakers sigldi fram úr á endanum og vann 109-98 sigur.

Kobe Bryant skoraði 38 stig í leiknum, þar af 21 af vítalínunni en Gasol tók tíu fráköst auk stiganna átján sem hann skoraði. Lamar Odom var með sextán stig og níu fráköst.

Mehmet Okur átti góðan leik í liði Utah og skoraði 21 stig og tók nítján fráköst. Utah-liðið hitti þó illa í leiknum en skotnýting þess var um 37 prósent.

Carlos Boozer og Deron Williams fundu sig illa í leiknum en Boozer skoraði fimmtán stig og Williams fjórtán.

Liðin mætast öðru sinni aðfaranótt fimmtudags í Los Angeles.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×