Körfubolti

Boston einum sigri frá titlinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pierce, leikmaður Boston.
Paul Pierce, leikmaður Boston. Nordic Photos / Getty Images

Boston gerði sér lítið fyrir í nótt og vann fjórða leikinn í úrslitarimmu liðsins gegn Los Angeles Lakers í nótt, 97-91. Boston er því komið með 3-1 forystu og þarf því aðeins einn sigur til að tryggja sér meistaratitilinn.

Þetta var mikill baráttusigur hjá Boston í nótt. Lakers komst mest í 24 stiga forystu í leiknum og var með ótrúlegt 21 stigs forskot eftir fyrsta leikhluta þar sem staðan var 35-14.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem lið í úrslitunum nær að vinna leik eftir að hafa lent meira en fimmtán stigum undir eftir fyrsta leikhluta.

Lakers virtist hafa gert út um leikinn er liðið náði 20 stiga forystu þegar þriðji leikhluti var hálfnaður en þá byrjaði Boston að láta til sín taka og náði að minnka muninn í tvö stig áður en leikhlutinn var úti.

Eddie House náði síðan forystunni fyrir Boston í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum og gengu Boston-menn á lagið.

Paul Pierce, sem er uppalinn í Los Angeles, skoraði 20 stig í leiknum og gaf sjö stoðsendingar. Ray Allen skoraði nítján stig og tók níu fráköst og þá var Kevin Garnett með sextán stig og ellefu fráköst. James Posey átti einnig góðan leik og skoraði átján stig.

Lamar Odom var stigahæstur hjá Lakers með nítján stig og tíu fráköst. Pau Gasol og Kobe Bryant voru með sautján stig hvor en Gasol var með tíu fráköst og Bryant með tíu stoðsendingar. Derek Fisher var með þrettán stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×