Körfubolti

Hack-a-Shaq fyrirbærið til skoðunar í NBA

Shaquille O´Neal var ítrekað sendur á línuna gegn San Antonio
Shaquille O´Neal var ítrekað sendur á línuna gegn San Antonio NordcPhotos/GettyImages

David Stern, forseti NBA, segir að mótanefnd deildarinnar ætli sér að taka fyrirbærið Hack-a-Shaq til skoðunar þegar hún kemur saman í Orlando í næsta mánuði.

Þetta fyrirbæri setti svip sinn á fyrstu umferð úrslitakeppninnar þegar leikmenn San Antonio brugðu á það ráð af og til í einvíginu gegn Phoenix að brjóta á Shaquille O´Neal í tíma og ótíma þó hann væri fjarri boltanum.

Þessi "leikaðferð" hefur verið nefnd Hack-a-Shaq í höfuðið á Shaquille O´Neal, því henni var fyrst beitt með það fyrir augum að senda O´Neal á vítalínuna.

Hann er afleit vítaskytta og segja má að herbragð San Antonio hafi gengið ágætlega í fyrstu umferðinni því O´Neal var aðeins með 50% vítanýtingu í einvíginu.

San Antonio vann einvígið gegn Phoenix 4-1 og komst áfram.

Bæði fjölmiðlamenn og NBA aðdáendur hafa lýst yfir mikilli óánægju með þetta fyrirbæri, enda hægir það á leiknum og fáir hafa þar að auki gaman af því til lengdar að sjá skelfilegar vítaskyttur eins og Shaquille O´Neal taka 20 vítaskot í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×