Fótbolti

Sárt tap hjá Veigari og félögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson í leik með Stabæk.
Veigar Páll Gunnarsson í leik með Stabæk. Mynd/Scanpix
Stabæk tapaði í dag fyrir Vålerenga, 4-1, í úrslitum norsku bikarkeppninnar. Þar með missti Stabæk af tækifæri til að vinna bæði deildina og bikarinn.

Veigar Páll Gunnarsson lék fyrstu 85 mínúturnar í liði Stabæk en hann meiddist á æfingu á fimmtudaginn. Hann náðí hins vegar að hrista af sér meiðslin í dag. Pálmi Rafn Pálmason kom inn á sem varamaður fyrir Veigar Pál.

Stabæk byrjaði betur í leiknum í dag og leikmenn liðsins fengu nokkur tækifæri til að skora. Það var hins vegar Vålerenga sem varð fyrst til að skora en þar var Mohammed Abdellaoue að verki.

Stabæk reyndi áfram að sækja en ekkert gekk. Það var svo í upphafi síðari leiksins að Vålerenga gerði út um leikinn með tveimur mörkum á fjórum mínútum. Daniel Holm og Abdellaoue voru þar að verki.

Stabæk náði svo að klóra í bakkann á 70. mínútu og lagði Veigar Páll upp það mark fyrir Johan Andersen. En aðeins mínútu síðar skoraði Holm sitt annað mark í leiknum og innsiglaði þar með sigur Vålerenga.

Þetta eru mikil vonbrigði fyrir leikmenn Stabæk og ekki síst Veigar Pál sem var tíðrætt um það í aðdraganda leiksins að hann hefði mikinn hug á að vinna bikarinn. Stabæk varð í haust Noregsmeistari í knattspyrnu en Vålerenga varð í tíunda sæti deildarinnar, 24 stigum á eftir Stabæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×