Fótbolti

Veigar: Með tárin í augunum eftir að Pálmi skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll í leik með Stabæk.
Veigar Páll í leik með Stabæk. Mynd/Scanpix

Veigar Páll Gunnarsson sagði að það hefði verið nánast ólýsanleg tilfinning að sjá Pálma Rafn Pálmason skora sigurmark Stabæk gegn Brann í norsku úrvalsdeildinni í gær.

Leiknum lauk með 2-1 sigri Stabæk en mark Pálma kom í uppbótartíma leiksins. Sigurinn þýðir að Stabæk er svo gott sem orðið Noregsmeistari en liðið þyrfti að tapa báðum sínum leikjum sem eftir eru á tímabilinu með um 20 marka mun til að missa titilinn frá sér.

„Þetta var hálffurðulegur leikur. Brann var miklu betri aðilinn þó svo að þeir hafi verið einum færri," sagði Veigar í samtali við Vísi en Kristjáni Erni Sigurðssyni var vikið af velli strax á 20. mínútu leiksins. „Við vorum bara lélegir. Samt náðum við einhvern veginn að ná í öll stigin."

„Þetta er auðvitað ekki enn fullkomnlega öruggt en ég held að það sé alveg ljóst að við gátum leyft okkur að fagna þessu í gær. Sem var gert vel og lengi í gærkvöldi og nótt. Það var ekki beint í spilunum að fara upp á hótel og sofa."

Leikið var í Björgvin í gær en Stabæk er staðsett í Bærum, rétt utan Osló. Þangað voru leikmenn Stabæk nýkomnir þegar Vísi náði tali af Veigari.

„Það er búin að ríkja gríðarlega góð stemning í bænum og við höfum ekki enn fengið frið frá fjölmiðlum síðan að leiknum lauk. Við fáum væntanlega bikarinn afhentan á sunnudaginn en það verður síðasti leikurinn á gamla heimavellinum okkar. Þetta er líka í fyrsta skiptið sem Stabæk verður meistari og það er því um að gera að klára dæmið á sunnudaginn," sagði Veigar en Stabæk mætir Vålerenga um helgina. Þessi félög mætast einnig í úrslitum bikarkeppninnar í nóvember og getur því Stabæk unnið tvöfalt.

Tímabilinu sem nú fer að ljúka er hið fimmta hjá Veigari með Stabæk. Þangað kom hann fyrir tímabilið 2004 frá KR.

„Ég sá þetta ekki fyrir árið 2004 þegar við féllum úr úrvalsdeildinni. En við komumst upp aftur og eftir að núverandi þjálfari kom hefur gengið verið upp á við. Maður átti þess vegna von á því að þetta væri í vændum árið 2006 þegar við urðum í fimmta sæti. Þá var þetta farið að líta ótrúlega vel út hjá okkur."

„En tilfinningin í dag er auðvitað stórkostleg og varla hægt að lýsa henni. Maður hefur ekki hugsað um annað síðasta hálfa mánuðinn og mikill léttir að ná þessu."

Veigar varð Íslandsmeistari með KR bæði 2002 og 2003, bæði árin sín hjá félaginu. Hann segir tilfinninguna ekki vera ósvipaða þó vitanlega sé þetta allt stærra og meira um sig í Noregi. „Sérstaklega er þetta merkilegt fyrir Íslending að ná þessum árangri í Noregi."

„En það mætti helst líkja þessu við þegar við í KR urðum meistarar árið 2002 í þyrluleiknum fræga. Þegar maður sá þyrluna koma var maður með gæsahúð síðasta hálftímann í leiknum."

„Svo í gær þegar að Pálmi skoraði sigurmarkið í leiknum ... það var ótrúlegt. Það liggur við að ég hafi verið með tárin í augunum síðustu mínútur leiksins."

Þetta var fyrsta mark Pálma með Stabæk en þangað kom hann frá Val nú fyrr í sumar.

„Þetta er ótrúlega flott fyrir hann. Hann er orðinn að hetju hérna í bænum, er í fyrirsögnum í öllum blöðunum og athyglin beinist afar mikið að honum. Hann sýndi með þessu marki að hann á eftir að gera það gott hér. Hann átti frábæra innkomu í þessum leik og hefði svo sem getað skorað annað mark en klúðraði því á einhvern ótrúlegan hátt," sagði Veigar í léttum dúr.

Hann neitar því ekki að það heilli hann að fá að spreyta sig á nýjum og stærri vettvangi en norska deildin býður upp á. „Ég hef þó ekkert heyrt af þessum málum og ekki útlit fyrir annað en að ég verði áfram hjá Stabæk. En ef við vinnum bikarinn líka er aldrei að vita hvað gerist."

Veigar átti einnig mjög góða leiki með landsliðinu í upphafi mánaðarins, fyrst gegn gríðarlega sterku landsliði Hollands og þá skoraði hann sigurmark Íslands gegn Makedóníu.

„Þetta hefði ekki getað orðið betra. Ég var mjög ánægður með mína frammistöðu með landsliðinu og fékk líka að heyra það frá landsliðsþjálfurunum. Svo byrjaði deildin aftur og þetta gerist. Þetta verður bara ekki betra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×