Fótbolti

Pálmi spilaði 9 mínútur og lagði upp tvö fyrir Veigar Pál

Pálmi Rafn Pálmason er að byrja vel með Stabæk.
Pálmi Rafn Pálmason er að byrja vel með Stabæk.

Pálmi Rafn Pálmason leikmaður Stabæk í Noregi átti heldur betur þátt í 4:1 sigri liðsins á Strømsgodset í gærkvöldi. Pálmi kom inn á sem varamaður eftir 81 mínútu í stöðunni 2:1 fyrir Stabæk.

Þegar Pálmi hafði verið inni á vellinum í tvær mínútur lagði hann upp mark fyrir félaga sinn Veigar Pál Gunnarsson. Sjö mínútum síðar átti Pálmi aðra sendingu á Vegar Pál sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið.

Norskir fjölmiðlar halda vart vatni yfir Pálma sem kom nýlega til félagsins frá Val en Pálmi var valinn í landsliðshóp Íslands gegn Aserbadjen síðar í mánuðinum. Norskir fjölmiðlar eru ánægðir með samvinnu Veigars og Pálma.

„Við vorum með frábæran bekk í dag og þar eru margir góðir möguleikar sem ég hef beðið eftir lengi," sagði Veigar Páll við Dagbladet.no eftir leikinn.

„Pálmi hefur verið á bekknum til þessa, en hann er frábær leikmaður sem á eftir að reynast okkur dýrmætur," sagði Veigar einnig.

Leikurinn var í norska bikarnum en Stabæk eru nú komnir í undanúrslit ásamt Molde, Odd og Valerenga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×