Körfubolti

Tekst Lakers að jafna metin í nótt?

Pau Gasol hefur alls ekki náð sér á strik í úrslitaeinvíginu
Pau Gasol hefur alls ekki náð sér á strik í úrslitaeinvíginu NordcPhotos/GettyImages

Fjórði leikur LA Lakers og Boston Celtics í lokaúrslitum NBA fer fram í Los Angeles klukkan eitt eftir miðnætti í nótt. Lakers-liðið getur jafnað metin í 2-2 í einvíginu með sigri í nótt.

Boston vann fyrstu tvo leikina í einvíginu sem fram fóru í Boston en Lakers vann baráttusigur í þriðja leiknum í Los Angeles á þriðjudagskvöldið.

Fimmti leikur liðanna verður líka í Los Angeles, en síðustu tveir leikirnir verða svo í Boston ef með þarf.

Lakers-liðið hefur unnið alla níu heimaleiki sína í úrslitakeppninni, en liðið vann frekar nauman 87-81 sigur í þriðja leiknum.

Heimamenn voru ekki sérlega sannfærandi í síðasta leik þar sem þeir Pau Gasol og Lamar Odom voru báðir fjarri sínu besta og skoruðu aðeins 13 stig samanlagt.

Það var einna helst stórleikur þeirra Kobe Bryant (36 stig) og Sasha Vujacic (20 stig) sem tryggði Lakers sigurinn.

Lykilmenn Boston voru líka langt frá sínu besta í síðasta leik sem einkenndist af mikilli taugaspennu. Paul Pierce hitti þannig aðeins úr 2 af 14 skotum sínum og skoraði 6 stig og Kevin Garnett hitti aðeins úr 6 af 21 skoti og skoraði 13 stig.

Leikurinn í nótt hefst sem fyrr segir klukkan eitt eftir miðnætti og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×