Sport

Hatton og Lewis skora á Calzaghe að hætta

Calzaghe er taplaus í 46 bardögum
Calzaghe er taplaus í 46 bardögum NordicPhotos/GettyImages

Bresku hnefaleikararnir Ricky Hatton og Lennox Lewis hafa skorað á Walesverjann Joe Calzaghe að leggja hanskana á hilluna eftir öruggan sigur hans á Roy Jones jr í New York um helgina.

Hinn 36 ára gamli Calzaghe hefur þar með unnið sigur í öllum 46 bardögum sínum á ferlinum og Hatton skorar á hann að láta gott heita.

"Það er ekkert meira sem Joe getur gert. Það koma alltaf nýir áskorendur, en Joe hefur sigrað Bernard Hopkins og Roy Jones og unnið sigra í Madison Square Garden og Las Vegas. Það er ekki hægt að enda ferilinn betur," sagði Hatton.

Calzaghe hefur líka látið í það skína að þetta hafi verið síðasti bardagi hans á ferlinum.

"Ég hef verið ósigraður í 18 ár og þetta er líklega síðasti bardaginn minn. Ég ætla ekki að gefa út neinar yfirlýsingar núna, en ég á frekar von á því að hætta núna. Nú ætla ég að taka mér gott frí með fjölskyldunni og fara yfir stöðuna," sagði Calzaghe.

Fyrrum þungaviktarmeistarinn Lennox Lewis hefur einnig skorað á Calzaghe að hætta núna. "Hann hefur unnið alla sem vert er að vinna og hefur ekkert meira að sanna. Ég held að hann ætti að hætta," sagði Lewis.



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×