Fótbolti

Bjarni Ólafur til reynslu í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals.
Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals. Mynd/Anton

Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals, er við æfingar hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Álasundi þessa vikuna. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Bjarni Ólafur var á sínum tímabil hjá Silkeborg í Danmörku í tvö tímabil en sneri aftur heim til Íslands um í byrjun tímabilsins í fyrra. Hann varð síðan Íslandsmeistari með Val og vann sér svo sæti í íslenska landsliðinu á ný. Hann var til að mynda í byrjunarliði Íslands sem gerði 2-2 jafntefli gegn Norðmönnum ytra í haust.

Álasund hefur verið í mikilli fallbaráttu í norsku úrvalsdeildinni í sumar en með félaginu leikur einnig Haraldur Freyr Guðmundsson. Liðið varð í næstneðsta sæti en þar sem liðum verður fjölgað í deildinni á næsta tímabili fær það tækifæri til að halda sæti sínu í deildinni.

Liðið mætir Sogndal, sem varð í fjórða sæti B-deildarinnar, í tveimur leikjum um hvort liðið leiki í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Fyrri leikurinn verður á heimavelli Sogndal á laugardaginn og sá síðari á miðvikudaginn í næstu viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×