Fótbolti

Sorgardagur fyrir Stabæk

Veigar Páll
Veigar Páll Mynd/Scanpix

Franska knattspyrnufélagið Nancy ætlaði upphaflega að fá Veigar Pál Gunnarsson fyrir ekki neitt. Þetta segir yfirmaður íþróttamála hjá Stabæk í viðtali við Stöð2.

Eins og greint var frá í dag hefur Stabæk samþykkt tilboð frá Nancy í Veigar Pál. Kaupverðið fæst ekki uppgefið en fréttamaður hjá TV2 í Noregi sem Stöð2 hafði samband við í dag, sagði óstaðfestar heimildir sínar herma að það nemi 15 og hálfri milljón norskra króna. Það gerir 263 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins.

Yfirmaður íþróttamála hjá Stabæk er Lars Bohinen, fyrrverandi leikmaður á Englandi með Derby, Blackburn og Notthingam Forest. Hann segir mikla eftirsjá af Veigari.

„Þetta er sorgardagur fyrir Stabæk, hér sjá menn mjög eftir Veigari enda er hann leikmaður sem átti stóran þátt í meistaratitlinum. Hann er dáður hérna fyrir öll mörkin sem hann hefur skorað svo ekki sé minnst á allar stoðsendingarnar hans." Sagði Bohinen meðal annars.

Aðspurður um hversu ákafir menn hjá Nancy hafi verið að krækja í Veigar sagði Bohinen; „Þeir héldu nú fyrst að þeir gætu fengið hann frítt og í raun erum við ekki sáttir hérna hjá Stabæk hversu lítið við fáum fyrir Veigar miðað við það sem við metum hann á. En í ljósi efnahagsástandsins í heiminum þá er upphæðin sem við fáum fyrir hann eftir allt sanngjörn."

Fréttastofa náði ekki í Veigar í dag en hann er í jólafríi í Bandaríkjunum sem einhver truflun verður nú á. Bohinen reiknar með að Veigar þurfi að fljúga til Frakklands á morgun til að gangast undir læknisskoðun og ganga frá persónulegum samningi við Nancy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×