Körfubolti

Lakers hélt lífi í úrslitunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant og félagar höfðu betur í nótt.
Kobe Bryant og félagar höfðu betur í nótt. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers náði í nótt að minnka muninn í 3-2 í úrslitarimmu liðsins gegn Boston Celtics í NBA-deildinni með sigri í fimmta leik liðanna í nótt, 103-98.

Lakers vann því tvo leiki á heimavelli en tapaði einum. Næsti leikur fer fram í Boston þar sem Celtics komust í 2-0 í einvíginu. Liðið hefur nú tvö tækifæri til að tryggja sér titilinn á heimavelli.

Þar að auki hefur ekkert lið unnið NBA-meistaratitilinn eftir að hafa lent 3-1 undir í úrslitarimmunni. Lakers á því erfitt verkefni fyrir höndum í Boston en sjötti leikurinn fer fram á fimmtudagskvöldið.

Rétt eins og í síðasta leik náði Lakers vænri forystu strax eftir fyrsta leikhluta, 39-22. Kobe Bryant skoraði fimmtán stig í leikhlutanum en náði sér hins vegar ekki á strik eftir það. Alls skoraði hann 25 stig í leiknum.

En rétt eins og í síðasta leik náði Boston að minnka forystuna verulega en Paul Pierce minnkaði muninn í tvö stig þegar rúm mínúta var til leiksloka.

Lokaspretturinn var spennandi en Lakers náði að halda forystuna allt til loka þó svo að Eddie House setti niður þriggja stiga körfu þegar fjórtán sekúndur voru til leiksloka. Kobe Bryant var þá nýbúinn að setja niður troðslu og Derek Fisher kláraði leikinn af vítalínunni.

Lamar Odom skoraði 20 stig fyrir Lakers og tók ellefu fráköst. Pau Gasol var með nítján stig og þrettán fráköst.

Hjá Boston fór Pierce á kostum og skoraði 38 stig, gaf átta stoðsendingar og tók sex fráköst. Ray Allen var með sextán stig og Kevin Garnett þrettán og fjórtán fráköst. Aðrir leikmenn liðsins voru undir tíu stigum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×