Körfubolti

Miami og Atlanta endurtaka lokamínútuna

Shaquille O´Neal var vikið af velli gegn Atlanta vegna mistaka
Shaquille O´Neal var vikið af velli gegn Atlanta vegna mistaka NordicPhotos/GettyImages

Sá sjaldgæfi atburður mun eiga sér stað í NBA deildinni í mars að tæp mínúta úr leik Miami og Atlanta frá því þann 19. desember verður leikin upp á nýtt vegna mistaka á ritaraborði í fyrri leiknum.

Miami liðið fann að því eftir leikinn að miðherjinn Shaquille O´Neal hefði verið vikið af velli með sína sjöttu villu þegar 51,9 sekúndur voru eftir af framlengdum leiknum í Atlanta. Villan var ranglega bókfærð á O´Neal, sem fékk alls ekki villuna.

Eftir að hafa tekið málið til skoðunar hefur David Stern forseti NBA nú sektað Atlanta liðið um 50,000 dollara fyrir að horfa fram hjá því að villan hafi verið dæmd á rangan mann og síðasta mínútan í leiknum skal vera spiluð aftur fyrir næsta leik liðanna þann 8. mars í Atlanta.

Atlanta vann leikinn 117-111 og því er ekki útséð með úrslit leiksins fyrr en í vor. Þetta var einmitt leikurinn örlagaríki þar sem Alonzo Mourning meiddist illa á hné og þurfti að leggja skóna á hilluna í kjölfarið.

Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1982 sem deildin ákveður að leikur skuli að hluta til endurtekinn, en þá kærði San Antonio úrslit leiks gegn LA Lakers þar sem úrslitin réðust í framlengingu. San Antonio tapaði fyrri leiknum en vann endurtekna leikinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×