Körfubolti

Fimmtánda tap Miami staðreynd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinir meiddur Shaquille O'Neal og Alonzo Mourning horfðu upp á sína menn tapa enn einum leiknum í nótt.
Hinir meiddur Shaquille O'Neal og Alonzo Mourning horfðu upp á sína menn tapa enn einum leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Miami Heat tapaði sínum fimmtánda leik í röð í NBA-deildinni í nótt en nú tapaði liðið afar naumt fyrir San Antonio Spurs á heimavelli, 90-89.

Miami hafði tíu stiga forystu í síðari hálfleik en San Antonio náði að saxa á forskotið og Manu Ginobili skoraði svo sigurkörfu leiksins þegar hálf mínúta var til leiksloka.

Miami er nú tveimur tapleikjum frá því að jafna félagsmetið sitt hvað tapleikjahrinur varðar. En tapleikurinn í nótt var ef til vill sérstaklega sár þar sem Miami var með forystuna eða staðan var jöfn í tæpar 47 mínútur í leiknum.

„Ég veit ekki hvort við getum spilað eitthvað betur en þetta," sagði Pat Riley, þjálfari Miami.

Tim Duncan var með 30 stig í nótt og bætti við ellefu fráköstum. Dwyane Wade var með 27 stig og níu stoðsendingar hjá Miami.

Þá vann Milwaukee tólf stiga sigur á Indiana, 104-92, og Golden State vann góðan tveggja stiga sigur á New Jersey Nets, 121-119.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×