Körfubolti

Cleveland - Phoenix í beinni á miðnætti

Amare Stoudemire hjá Phoenix fer upp í troðslu í leik gegn Cleveland í janúar í fyrra.
Amare Stoudemire hjá Phoenix fer upp í troðslu í leik gegn Cleveland í janúar í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Leikur Cleveland og Phoenix í NBA deildinni verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan tólf á miðnætti í nótt. Cleveland hefur unnið fimm leiki í röð og tekur í kvöld á móti einu besta liði deildarinnar.

Cleveland (23 sigrar - 18 töp) byrjaði leiktíðina mjög illa en hefur heldur betur komið til baka eftir áramótin og er sem stendur á lengstu sigurgöngu sinni á tímabilinu. Liðið hefur unnið 9 af síðustu 10 leikjum sínum og rótburstaði Washington 121-85 í síðasta leik. Það var stærsti sigur Cleveland í 14 ár.

Miðherjinn Zydrunas Ilgauskas afrekaði það í leiknum að hitta úr öllum 10 skotum sínum. Hann skoraði 24 stig og LeBron James var með 23 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

Cleveland varð þó fyrir áfalli í leiknum þar sem það missti byrjunarliðsmanninn Sasha Pavlovic í meiðsli og verður hann frá keppni næstu sex til átta vikurnar.

Phoenix (30 sigrar - 13 töp) kemur væntanlega vel stemmt til leiks í kvöld eftir slæmt tap fyrir neðsta liði deildarinnar Minnesota í síðasta leik. Phoenix er engu að síður eina liðið í Vesturdeildinni sem er búið að vinna 30 leiki í deildarkeppninni og hætt er við því að liðið sýni mun betri leik í kvöld en gegn Minnesota.

Phoenix hefur þess utan gengið mjög vel í viðureignum sínum gegn Cleveland í gegn um árin og hefur Phoenix unnið 14 af síðustu 17 leikjum liðanna.

Staðan í NBA

NBA bloggið á Vísi

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×