Körfubolti

NBA í nótt: Indiana vann Portland

LaMarcus Aldridge og David Harrison berjast um knöttinn.
LaMarcus Aldridge og David Harrison berjast um knöttinn. Nordic Photos / Getty Images

Indiana virðist komið á beinu brautina á ný eftir sigur á Portland í NBA-deildinni í nótt, 101-93.

Þetta var annar sigur Indiana í röð eftir að liðið tapaði sjö leikjum í röð. En þökk sé þessum tveimur sigrum hefur liðið náð að koma sér upp í áttunda sæti Austurstrandarinnar. Það eru því enn góðar líkur á því að Indiana komist í úrslitakeppnina í vor.

Danny Granger var stigahæstur leikmanna Indiana með 29 stig en Mike Dunleavy meiddist í fyrri hálfleik og gat því ekkert spilað með í þeim síðari. Hann skoraði samt ellefu stig í leiknum.

Brandon Roy lék ekki með Portland en hann hefur misst af síðustu tveimur leikjum liðsins vegna dauðsfalls í fjölskyldu sinni.

New Orleans vann góðan heimasigur á Memphis, 112-99. David West var með 33 stig og tíu fráköst fyrir New Orleans og Peja Stojakovic kom næstur með 26 stig. Þetta var sjötti tapleikur Memphis í röð.

Houston vann sigur á Atlanta, 108-89. Yao Ming skoraði 28 stig auk þess sem hann tók níu fráköst í leiknum. Þetta var sjötti sigur Houston í röð og sá tíundi af síðustu ellefu leikjum liðsins.

New York vann sinn fyrsta leik í síðustu níu leikjum sínum er liðið vann útisigur á Milwaukee, 99-98. Jamal Crawford var með 30 stig í leiknum.

Utah vann Chicago, 97-87, á heimavelli þar sem Carlos Boozer skoraði 22 stig og tók tólf fráköst fyrir Utah.

Golden State vann nauman sigur á Sacramento, 105-102. Monta Ellis skoraði 16 af sínum 34 stigum í fjórða leikhluta en Stephen Jackson kom næstur hjá Golden State með 26 stig.

Philadelphia vann stóran sigur á LA Clippers, 101-80.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×