Handbolti

Andri Berg: Það hefur eitthvað hlaupið í hann

Mynd/Arnþór Birgisson

Andri Berg Haraldsson segist hafa verið mjög hissa þegar honum var vikið af leikvelli með rautt spjald í leik Fram og Akureyrar í Eimskipabikarnum í gærkvöldi.

"Ég var mjög hissa þegar ég sá spjaldið. Ég sá ekki myndbandið fyrr en seint um kvöldið en ég var mikið að hugsa hvort ég hefði gert eitthvað af mér, því mér fannst ég ekki gera neitt - en myndbandið segir allt sem segja þarf," sagði Andri í samtali við Vísi.

"Ég get ekki svarað fyrir dómarann, en honum hefur eitthvað missést. Þetta eru bara mistök og dómarar gera mistök eins og aðrir. Ég er búinn að spila leikinn fram og til baka í höfðinu og ég skil ekki hvað þetta var. Það hefur eitthvað hlaupið í hann Jankovic," sagði Andri og sagði ekkert óeðlilegt hafa farið þeirra í milli í leiknum.

Framarar eru heldur ekki sáttir við rauða spjaldið og á heimasíðu félagsins hefur verið birt áskorun til aganefndar HSÍ þar sem hún er hvött til að fara yfir myndband af atvikinu áður en hún kveður upp dóm í málinu.

Andri ætti samkvæmt þessu að fara í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið, en að hans sögn yrði bannið líklega tveir leikir að öllu óbreyttu.

"Ég fékk rautt spjald í leik með B-liðinu þegar ég var að koma úr meiðslum þannig að þetta myndi líklega þýða tveggja leikja bann fyrir mig. Við eigum risaleiki við Hauka og Stjörnuna. Það eru algjörir lykilleikir fyrir okkur og ég trúi bara ekki að þetta spjald standi. Ég veit að stjórnin er eitthvað að vinna í þessu og ég læt þá alveg um þetta," sagði Andri í samtali við Vísi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×