Handbolti

Fylkir og Stjarnan í bikarúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sunna María Einarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fylki í kvöld.
Sunna María Einarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fylki í kvöld. Mynd/Valli

Fylkir vann afar óvæntan sigur á Val í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta og mætir Stjörnunni í úrslitaleiknum.

Valur var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en góður endasprettur Fylkismanna gerði það að verkum að staðan var jöfn í hálfleik, 9-9.

Liðin skiptust á að vera með forystuna í síðari hálfleik en Fylkir komst í eins marks forystu, 22-21, þegar rúm mínúta var til leikskloka. Valur fékk nokkur tækifæri til að jafna metin en allt kom fyrir ekki.

Jelena Jovanovic, markvörður Fylkis, átti stórleik og ríkan þátt í því að Fylkir er nú komið í bikarúrslit í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Natasa Damljanovic skoraði níu mörk fyrir Fylki og Sunna María Einarsdóttir sjö. Hafrún Kristjánsdóttir og Eva Barna voru markahæstar hjá Val með fjögur mörk.

Stjarnan vann fyrr í kvöld sigur á Gróttu í hinum undanúrslitaleiknum, 31-26, en staðan í hálfleik var 15-13, Stjörnunni í vil.

Alina Petrache skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna og þær Birgit Engl og Arna Gunnarsdóttir sex hver. Hjá Gróttu var Pavla Plaminkova markahæst með tíu mörk en þær Aukse Vysnianskaite og Karólína B. Gunnarsdóttir skoruðu fimm mörk hver.

Úrslitaleikurinn fer fram í Laugardalshöllinni þann 1. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×