Suður-Kóreumaðurinn KJ Choi er með forystu eftir fyrsta keppnisdaginn á Northern Trust mótinu sem er hluti af PGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum.
Choi lék fyrsta hringinn á 65 höggum eða sex undir pari. Hann lék einkar vel og fékk engan skolla. Choi hefur eins högg forystu á Bandaríkjamanninn Kevin Na en sautján leikmenn þurftu að klára fyrsta keppnishringinn í morgun þar sem þeir gátu ekki klárað í gær áður en dimma tók.
Chad Campbell og Vaughn Taylor léku á 67 höggum og Phil Mickelson á 68 höggum. En það voru einnig nokkur stór nöfn sem náðu sér engan vegin á strik, til að mynda Sergio Garcia sem lék á 74 höggum, Adam Scott á 73 höggum og Retief Goosen á 79 höggum.
Annar keppnisdagur er þegar hafinn en þeir sem náðu bestum árangri í gær hefja leik innan skamms.