Handbolti

Íslenskir þjálfarar úr myndinni?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Halldórsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Halldórsson, þjálfari Stjörnunnar.

Vísir hafði samband við þrjá þjálfara í efstu deild karla en enginn þeirra hefur heyrt neitt í HSÍ varðandi ráðningu nýs landsliðsþjálfara.

Þetta eru Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, Kristján Halldórsson, þjálfari bikarmeistara Stjörnunnar og Bjarki Sigurðsson, þjálfari Aftureldingar og margreyndur landsliðsmaður.

„Nei, og ég á ekki von á því heldur," sagði Óskar Bjarni aðspurður um hvort að HSÍ hefði sett sig í samband við hann. Hvorki hann né Bjarki útilokuðu þó að ræða við HSÍ ef þeir myndu heyra frá forráðamönnum sambandsins.

Kristján, hins vegar, fannst nóg komið eftir að hafa hlustað á Þorberg Aðalsteinsson, stjórnarmann HSÍ í þættinum Utan vallar á Sýn í gær.

„Nei, ég er einn af mörgum sem vilja fá hvíld frá þessu máli. Mér fannst þetta fara yfir strikið hjá Þorbergi. Menn eru orðnir örvæntingafullir og vilja bara fá einhvern og einhvern."

Bjarki sagði að það væri sín skoðun að HSÍ hafi farið vitlaust að málum í leit sinni að nýjum landsliðsþjálfara.

„Þeir áttu að auglýsa starfið, taka á móti umsóknum og velja út frá þeim. En ef þeir hefðu samband við mig myndi ég vilja heyra hvað þeir hefðu fram að færa. Ég myndi meta þetta út frá framtíðarsýn þeirra og fleira í þeim dúr."

Nöfn Guðmundar Guðmundssonar og Viggós Sigurðssonar hafa einnig verið nefnd í umræðunni um nýjan landsliðsþjálfara en voru báðir starfandi landsliðsþjálfara fyrir fáeinum árum síðan.

Vísir hefur ekki náð tali af þeim í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×