Körfubolti

NBA í nótt: Kobe með 52 stig gegn Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant mátti vera ánægður með sína frammistöðu í nótt.
Kobe Bryant mátti vera ánægður með sína frammistöðu í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Kobe Bryant fór á kostum í sigri LA Lakers á Dallas Mavericks í framlengdum leik, 108-104, í NBA-deildinni í nótt.

Bryant skoraði 52 stig í leiknum, þar af 30 í fjórða leikhluta og framlengingunni. Dallas var með sex stiga forystu þegar um sjö mínútur voru til leiksloka en Lakers náði að jafna muninn og komast yfir með 11-2 spretti.

Í framlengingunni náði Lakers fimm stiga forystu á fyrstu mínútunni og lét hana aldrei af hendi.

Það stóð reyndar mjög tæpt þar sem Jason Kidd náði að minnka muninn í eitt stig þegar tíu sekúndur voru eftir en hann brenndi af vítakasti í kjölfarið og Kobe Bryant skoraði tvívegis áður en leiktíminn rann út.

Dirk Nowitzky var með 30 stig og þrettán fráköst fyrir Dallas og Kidd var með fimmtán stig og ellefu stoðsendingar.

Pau Gasol skoraði sautján stig fyrir Lakers auk þess sem hann tók fjórtán fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Houston vann sinn fimmtánda leik í röð með því að vinna Denver, 103-89. Tracy McGrady var með 22 stig fyrir Houston og Shane Battier bætti við 20 stigum.

San Antonio vann sinn níunda sigur í röð en liðið vann New Jersey í nótt, 93-83. Tony Parker skoraði 25 stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Boston vann sinn fimmta sigur í röð er liðið vann Atlanta, 98-88. Paul Pierce var með 30 stig fyrir Boston.

Washington vann góðan sigur á New Orleans, 101-84. Antawn Jamison var með 28 stig fyrir Washington.

Golden State vann Portland, 110-104. Stephen Jackson skoraði 29 stig og Monta Ellis bætti við 22.

Indiana vann Milwaukee, 128-106, þar sem Mike Dunleavy fór hæst með 36 stig í leiknum.

Seattle batt enda á fjögurra leikja taphrinu með því að sigra Minnesota, 111-108, í framlengdum leik.

Charlotte vann Toronto, 110-98, og Sacramento vann Miami, 120-109.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×