Handbolti

Viggó Sigurðsson tekur við Fram

Viggó Sigurðsson
Viggó Sigurðsson mynd/pjetur

Viggó Sigurðsson hefur náð samkomulagi við handknattleiksdeild Fram um að taka við liðinu næsta sumar. Viggó hefur gert tveggja ára samning við Safamýrarfélagið, en hann hefur ekki þjálfað síðan hann stýrði Flensburg tímabundið í lok árs 2006.

"Þetta bar nokkuð skjótt að og við vorum bara tvo daga að ganga frá þessu," sagði Viggó í samtali við Vísi í kvöld. "Við erum búnir að ganga frá tveggja ára samningi og ég tek við liðinu í sumar," sagði Viggó, sem tekur við starfinu af Ferenc Buday.

"Ég hef verið að fá fyrirspurnir, en þegar þetta kom upp leist mér bara mjög vel á þetta og við gengum bara frá því. Ég tók mér pásu eftir landsliðið og var svo hjá Flensburg og það var ekkert spennandi uppi á borðinu í fyrra. Framararnir höfðu svo samband við mig og í framhaldinu af því var bara sest niður og málið klárað," sagði Viggó.

Hann er spenntur að taka við Fram. "Þetta er áhugavert lið og vel rekinn klúbbur með góða umgjörð og svo eru uppi hugmyndir um að styrkja liðið aðeins, þannig að það er spennandi að koma inn í þetta aftur. Mann fer alltaf að kitla aftur," sagði Viggó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×