Körfubolti

Meiðsli Allen koma á slæmum tíma fyrir Boston

NordcPhotos/GettyImages

Stórskyttan Ray Allen hjá Boston þurfti að fara meiddur af velli í fyrsta leikhlutanum í tapleik liðsins gegn Utah á heimavelli í nótt. Hann er tæpur fyrir næsta leik Boston og segja má að meiðsli hans komi á slæmum tíma fyrir þá grænklæddu.

Boston er nefnilega að fara á fimm leikja útivallarispu sem hefst gegn Milwaukee í kvöld. Allen er sagður mjög tæpur í þann leik en í gær kom fram að hann hefði snúið sig á ökkla.

Doc Rivers þjálfari Boston segir hinsvegar að Allen hafi meiðst á hæl. Eftir leikinn við Milwaukee í kvöld fer Boston svo líklega í erfiðustu útileikjarispu sína á leiktíðinni þar sem liðið sækir San Antonio, Houston, Dallas og New Orleans heim á næstu dögum.

"Við munum ekki breyta út af vananum og látum Ray ekki spila nema hann sé í standi til þess," sagði Doc Rivers í samtali við Boston Herald.

Til greina kemur að annað hvort Tony Allen eða jafnvel gamla brýnið Sam Cassell komi inn í byrjunarlið Boston í stað Allen ef hann þarf að sitja í nokkra daga.

Boston er með besta árangur allra liða í NBA deildinni og er fyrir löngu búið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×