Körfubolti

Gríðarleg spenna í Vesturdeildinni

George Karl þjálfari Denver messar yfir sínum mönnum
George Karl þjálfari Denver messar yfir sínum mönnum NordcPhotos/GettyImages

Dallas Mavericks tapaði enn einum leiknum í nótt þegar liðið lá fyrir Denver á útivelli 118-105. Denver er í níunda sæti Vesturdeildar en er nú komið fast á hæla Golden State og Dallas sem eru í sjöunda og áttunda sætinu.

Carmelo Anthony átti stórleik hjá Denver og skoraði 32 stig, hirti 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og Allen Iverson skoraði 31 stig. Josh Howard skoraði 30 stig fyrir Dallas og Jason Kidd var með 19 stig og 15 stoðsendingar.

Bestu tíðindin fyrir Denver í gær voru samt án efa þau að brasilíski framherjinn Nene fékk að leika síðustu mínúturnar í gær, en hann var að snúa aftur eftir 2,5 mánaða fjarveru eftir að hafa greinst með krabbamein í eistum.

Detroit Pistons tryggði sér sigur í miðriðlinum í Austurdeildinni með 85-69 sigri á Miami. Arron Affalo og Jason Maxiell skoruðu 15 stig hvor fyrir Detroit og Chauncey Billups skoraði 13 stig og gaf 11 stoðsendingar. Blake Ahern skoraði 15 stig fyrir arfaslakt lið Miami sem er fyrir löngu búið að leggja spilin á borðið og gefast upp í deildarkeppninni.

Loks vann Golden State góðan sigur á Portland 111-95. Stephen Jackson skoraði 24 stig fyrir Golden State og Monta Ellis var með 18 stig og 10 fráköst. Steve Blake skoraði 22 stig fyrir Portland og Jarrett Jack 19.

Dallas, Golden State og Denver há nú mikið einvígi um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina í Vesturdeildinni og Denver og Golden State mætast einmitt í næsta leik þar sem mikið verður í húfi.

Staðan í Austur- og Vesturdeild

Svona væri úrslitakeppnin ef hún byrjaði í dag

NBA Bloggið á Vísi

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×