Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, var að vonum ósáttur með að hafa tapað leiknum í kvöld. Grindavík var komið með níu stiga forystu í síðasta leikhluta og allt stefndi í sigur liðsins.
„Við bara klúðruðum þessum leik með óskynsemi. Varnarleikurinn var lélegur í lokin og það gerði það að verkum að við töpuðum. Það var einbeitingarskortur," sagði Friðrik í viðtali á Stöð 2 Sport.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells, var öllu kátari. „Það er bara ótrúlegt að við mætum í Grindavík, spilum svona vörn en náum samt að vinna. Það gefur mér mikið sjálfstraust ef við munum hitta á toppleik.
„Við vorum að gera mikið af röngum hlutum á löngum köflum í þessum leik. Tókum skot sem við áttum ekki að taka og í lok fyrri hálfleiks var sýnikennsla hvernig við eigum ekki að spila körfubolta á móti þessu liði.
„Við vitum að Grindavík getur mun betur og ef við mætum ekki af fullum krafti í leikinn á fimmtudag þá munum við tapa," sagði Hlynur.