Fótbolti

Forysta Stabæk sex stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Jóhannesson, leikmaður Fredrikstad.
Garðar Jóhannesson, leikmaður Fredrikstad. Nordic Photos / AFP
Fredrikstad og Rosenborg skildu jöfn í kvöld, 1-1, sem þýðir að Stabæk er komið með sex stiga forystu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Garðar Jóhannesson var í byrjunarliði Fredrikstad í kvöld en var tekinn út af í hálfleik eftir að félaga hans, Raymond Kvisvik, var vikið af velli fyrir að sparka Rune Jarstein, landsliðsmarkvörð Noregs og leikmann Rosenborg, niður.

Örstuttu síðar komst Rosenborg yfir með marki Didier Konan Ya en Fernando Wallace jafnaði metin með glæsilegu marki, beint úr aukaspyrnu, á 74. mínútu.

Fredrikstad hefði getað minnkað forystu Stabæk á toppi deildarinnar í fjögur stig og um leið komið sér í annað sæti deildarinnar.

En úrslitin þýða að Stabæk er með sex stiga forystu á bæði Tromsö og Fredrikstad þegar sex umferðir eru eftir í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×