Körfubolti

NBA molar: Besta hittni í átta ár

Steve Nash og félagar voru heitir í gærkvöldi
Steve Nash og félagar voru heitir í gærkvöldi NordicPhotos/GettyImages

Leikmenn Phoenix Suns voru heldur betur í stuði í nótt þegar þeir unnu 114-86 stórsigur á New Jersey á útivelli í NBA deildinni.

Liðið var með 63% skotnýtingu í leiknum, en besta nýtingin hjá liðinu var í öðrum leikhlutanum þegar liðið hitti úr 13 af 14 skotum sínum (92,9% nýting).

Þetta var besta nýting í fjórðung í leik í NBA deildinni í átta ár eða síðan Seattle hitti úr 16 af 17 skotum sínum í öðrum leikhluta í leik gegn Dallas í nóvember árið 2000.

Bell heitur

Skotbakvörðurinn Raja Bell átti skínandi leik í gær og hitti úr öllum sex þristum sínum í leiknum. Þetta var í þriðja sinn á ferlinum sem hann hefur tekið sex þriggja stiga skot í leik og hitt úr þeim öllum.

Aðeins einn leikmaður í tæplega 30 ára sögu þriggja stiga línunnar í NBA hefur jafnað þennan árangur. Það var miðherjinn Sam Perkins sem m.a. lék með Dallas, LA Lakers, Seattle og Indiana á árunum 1984-2001.

Söguleg byrjun San Antonio

San Antonio tapaði fyrir Dallas á heimavelli í nótt og hefur þar með tapað fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni. Þetta er lakasta byrjun liðsins síðan það kom inn í NBA deildina. Liðið tapaði fjórum fyrstu leikjum sínum árið 1973, en þá var það í ABA deildinni. San Antonio gekk inn í NBA deildina árið 1976.

Gasol-bræður í bækurnar

Marc Gasol hjá Memphis, litli bróðir Pau Gasol hjá LA Lakers, skoraði 27 stig og hirti 16 fráköst gegn Golden State í vikunni. Bræðurnir spænsku eru þar með þriðju bræðurnir í sögu NBA til að ná að skora 25 stig og hirða 15 fráköst í leik í deildinni. Hinir bræðurnir voru tvíburarnir Harvey og Horace Grant og Chuck og Wesley Person.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×