Heimsmarkaðsverð á gulli er nú komið yfir 900 dollara á únsuna og hefur ekki verið hærra í tæpa fjóra mánuði. Fjárfestar hópast í verðbréf sem byggja á gullbirgðum auk þess sem mikil ásókn er í gullpeninga og gullstangir.
Miðlarar í eðalmálum í Evrópu segja að fjárfestar séu að flýja með fé sitt í örugg skjól eins og gull yfirleitt er. Þetta kemur fram í Financial Times.
Talið er að verð á gulli muni ná stöðugleika nú í kringum 930 dollara á únsuna sem er svipað og það var í október. Metverð fékkst hinsvegar fyrir gull á síðasta ári í mars er það fór í 1.030 dollara.