Framkvæmdastjórn FIFA tók ákvörðun um það á fundi sínum í vikunni að landsleikjadagar yrðu framvegis á þriðjudögum í stað miðvikudaga áður. Heimasíða Knattspyrnusambandsins greinir frá þessu.
Hingað til hafa alþjóðlegir landsleikjadagar verið annars vegar á föstudögum eða laugardögum og svo á miðvikudögum. Frá og með september 2010 verða þessir landsleikjadagar á föstudögum eða laugardögum og þriðjudögum.
Þá ítrekaði framkvæmdastjórnin áherslur sínar varðandi TMS félagaskiptakerfið en félögin sem léku í Pepsi-deild karla á nýliðnu tímabili hafa fengið kynningu frá fulltrúum FIFA á þessu kerfi. Frá 5. október skulu félagaskipti samningsbundinna leikmanna á milli landa fara eingöngu fram í gegnum TMS kerfið.
Þetta á við um þau félög frá þeim 108 löndum sem hafa fengið kynningu á þessu kerfi og er Ísland eitt þeirra. Markar þessi dagsetning upphaf eins árs aðlögunartíma fyrir aðildarlöndin til þess að temja sér notkun þessa nýja kerfis. Frá október 2010 mun FIFA ógilda öll félagaskipti samningsbundinna leikmanna sem fara ekki fram í gegnum TMS kerfið.