Körfubolti

Hvað er líkt með metliðum Njarðvíkur 1988-89 og KR 2008-09?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson er búinn að skora 16,3 stig á 26,6 mínútum í vetur.
Jón Arnór Stefánsson er búinn að skora 16,3 stig á 26,6 mínútum í vetur. Fréttablaðið/Valli

KR-ingar geta í kvöld sett nýtt met í úrvalsdeild karla í körfubolta með því að vinna fimmtán fyrstu deildarleiki tímabilsins. KR-liðið jafnaði 20 ára gamalt met Njarðvíkur með fjórtánda sigrinum í röð fyrir tólf dögum en liðið vann þá Breiðablik.

Í kvöld sækja Vesturbæingar Snæfellinga heim í Hólminn og hefst leikurinn klukkan 19.15. Snæfellingar eru búnir að styrkja lið sitt frá því að þeir töpuðu með sex stigum fyrir KR á heimavelli í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar og hafa nú unnið fimm leiki í röð í Iceland Express deild karla. Snæfellingar eru nú komnir með bandaríska leikstjórnandann Lucious Wagner sem á að reyna að halda aftur af Jóni Arnóri Stefánssyni og Jakobi Erni Sigurðarsyni sem voru með 51 stig saman í bikarleiknum í nóvember.

Með sigri í kvöld bæta KR-ingar met Njarðvíkinga frá 1988-89. Það er gaman að bera saman þessi tvö lið sem eiga ýmislegt sameiginlegt þótt að sigurganga KR-inga hafi verið öllu meira sannfærandi en sú hjá Njarðvík fyrir tveimur áratugum síðan. KR-ingar eru búnir að vinna fjórtán fyrstu leiki sína með 25,7 stig að meðaltali í leik. Njarðvíkingar unnu sína fjórtán leiki með 18,3 stiga mun að meðaltali fyrir tuttugu árum.

Njarðvíkingar fengu þá færri stig á sig en KR í ár (71,2 á móti 73,5) en KR-liðið í ár skoraði aftur á móti miklu fleiri stig (99,2 á móti 89,5).

Sigurganga Njarðvíkinga fyrir rúmum 20 árum endaði í Grindavík 29. nóvember 1988. Þetta var annar leikur liðanna en Njarðvík hafði unnið nauman eins stigs sigur, 68-67, í fyrri leiknum í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Njarðvík átti aldrei möguleika gegn Grindavík þetta þriðjudagskvöld, Grindavík var með fjórtán stiga forskot í hálfleik og náði mest 22 stiga forustu í seinni hálfleik áður en Njarðvík náði að minnka muninn niður í 12 stig, 88-76, fyrir lokaflautið. Það dugði ekki Njarðvík að Teitur Örlygsson skoraði 27 stig í leiknum.

Teitur Örlygsson var í lykilhlutverki hjá Njarðvík fyrir tuttugu árum.

Njarðvíkingar urðu deildarmeistarar þetta tímabil með 22 sigra í 26 leikjum og fjögurra stiga forskot á nágranna sína í Keflavík. Njarðvík varð einnig bikarmeistari eftir 78-77 sigur á ÍR í úrslitaleiknum en á leið sinni í úrslitaleikinn hafði liðið slegið út Keflavík (2. sæti), Íslandsmeistara Hauka og KR (3. sæti). Vonbrigðin urðu aftur á móti mikil í úrslitakeppninni þar sem liðið vann ekki leik og tapaði 0-2 fyrir KR í undanúrslitunum.

Nágrannarnir í Keflavík urðu síðan Íslandsmeistarar í fyrsta sinn eftir 2-1 sigur á KR í lokaúrslitunum.

KR-ingar hafa unnið alla 25 leiki tímabilsins til þessa, 14 í deild, 4 í bikar, 4 í fyrirtækjabikar og 3 í Reykjavíkurmótinu. Á leið sinni í bikarúrslitin hafa KR-ingar þurft að fara erfiðu leiðina eins og Njarðvík fyrir 20 árum því KR er búið að slá út liðin í 2. til 4. sæti í Iceland Express deildinni.

Líkt og hjá KR í ár þá voru leikmenn Njarðvíkur 1988-89 strákar á svipuðum aldri sem voru aldir upp hjá félaginu. Þeir sex leikmenn liðsins sem spiluðu mest í liðinu voru á aldrinum 20 til 24 ára. Það var enginn Bandaríkjamaður í NJarðvíkurliðinu því á þessum árum voru þeir ekki leyfðir í deildinni. Bandaríkjamaðurinn Chris Fadness þjálfaði aftur á móti liðið á þessu tímabili.

Hér á eftir fer léttur samanburður á þessum tveimur liðum og tölfræði leikmanna þeirra í þessum fjórtán sigurleikjum frá upphafi tímabilsins.

Jason Dourisseau á ferðinni gegn Grindavík.Fréttablaðið/Arnþór
Leikstjórnandinn:

Njarðvík 1988-89: Ísak Tómasson, 24 ára

KR 2008-89: Jakob Örn Sigurðarson, 26 ára

Ísak var að skora 16,5 stig á 28,8 mínútum í leik og var annar stigahæsti leikmaður Njarðvíkurliðsins í fyrstu fjórtán leikjunum. Hann var einnig efstur í liðinu í stoðsendingum með 3,5 að meðaltali í leik.

Jakob er búinn að skora 17,4 stig á 28,6 mínútur og er stigahæsti leikmaður KR-liðsins. Jakob er einnig í 2. sæti í liðinu yfir stoðsendingar með 4,8 að meðaltali í leik. Jakob er búinn að skora 42 þriggja stiga körfur eða 3 að meðaltali í leik.

Skotbakvörður :

Njarðvík 1988-89: Friðrik Ingi Rúnarsson, 20 ára

KR 2008-89: Jón Arnór Stefánsson, 26 ára

Friðrik Ingi var að skora 13,0 stig á 24,6 mínútum og var með 39,4 prósent þriggja stiga nýtingu og 53,1 prósent skotnýtingu. Friðrik var þriðji stigahæsti leikmaður Njarðvíkur á hverjar 40 mínútur spilaðar. Friðrik Ingi kom einnig inn af bekknum og þá byrjaði Hreiðar Hreiðarsson í stöðu kraftframherja og Teitur færði sig niður í skotbakvörðinn.

Jón Arnór er búinn að skora 16,3 stig á 26,6 mínútum og er með 48,5 prósent þriggja stiga nýtingu og 44,6 prósent skotnýtingu. Jón Arnór er einnig þriðji í stoðsendingum hjá KR með 4,6 að meðaltali í leik.

Lítill framherji:

Njarðvík 1988-89: Teitur Örlygsson, 21 árs

KR 2008-89: Jason Dourisseau, 25 ára

Teitur var stigahæsti leikmaður Njarðvíkur með 18,9 stig á 31,5 mínútum í leik auk þess að verða annar í bæði fráköstum (7,5) og stoðsendingum (3,3). Teitur stal auk þess langflestum boltum (4,6) og skoraði flestar þriggja stiga körfur í liðinu (23 í 14 leikjum).

Jason er búinn að skora 16,9 stig á 25,0 mínútum í leik og er annar stigahæsti leikmaður KR-liðsins. Jason er frákastahæsti leikmaður KR með 6,6 fráköst í leik en hann er auk þess með 50,5 prósent skotnýtingu og 39,5 prósent þriggja stiga nýtingu.

Kraftframherji:

Njarðvík 1988-89: Kristinn Einarsson, 21 árs

KR 2008-89: Helgi Már Magnússon, 26 ára

Kristinn var með 10,9 stig og 6,3 fráköst að meðaltali á 27,1 mínútu. Kristinn var þriðji frákastahæsti leikmaður Njarðvíkurliðsins og í öðru sæti yfir stolna bolta með 3,5 að meðaltali í leik.

Helgi Már er búinn að skora 9,7 stig, taka 5,0 fráköst og gefa 5,0 stoðsendingar að meðaltali á 22,4 mínútum. Helgi er efstur í KR-liðinu í stoðsendingum og annar í stolnum boltum með 1,75 að meðaltali í leik. Þá er enginn í KR-liðinu búinn að verja fleiri skot.

Miðherji:

Njarðvík 1988-89: Helgi Rafnsson, 23 ára

KR 2008-89: Fannar Ólafsson, 30 ára

Helgi var með 14,0 stig og 12,9 fráköst á 30,8 mínútum í leik og nýtti 57,6 prósent skota sinna. Hann varð frákastahæsti leikmaður liðsins, þriðji stigahæstur og þriðji í stolnum boltum með 2,4 að meðaltali í leik.

Fannar er búinn að skora 8,6 stig og taka 6,1 frákast á 18,5 mínútum í leik sem gera meðaltöl upp á 19,3 stig og 9,1 frákast á hverjar 40 mínútur. Fannar hefur nýtt 49,4 prósent skota sinna og er annar frákastahæsti leikmaður liðsins.

Sjötti maður:

Njarðvík 1988-89: Hreiðar Hreiðarssoon, 22 ára

KR 2008-89: Darri Hilmarsson, 21 árs

Hreiðar var með 10,7 stig og 5,6 fráköst að meðaltali á 28,0 mínútum. Hreiðar var einnig með 2,4 stolna bolta að meðaltali og nýtti 48,1 prósent skota sinna og 78,6 prósent vítanna. Hreiðar byrjaði oft inn á í staðinn fyrir Friðrik Inga og Teitur færði sig þá niður í skotbakvörðinn.

Darri Hilmarsson er búinn að skora 10,0 stig og taka 4,7 fráköst á 20,7 mínútum. Darri er búinn að hitta úr 50,9 prósent skotanna og 91,3 prósent vítanna en hann hefur sett niður 46,7 prósent þriggja stiga skota sinna í þessum 14 leikjum.

Aðrir af bekknum:

Njarðvík 1988-89:

Friðrik Ragnarsson, 18 ára

Ellert Magnússon, 27 ára

KR 2008-89:

Pálmi Freyr Sigurgeirsson, 30 ára

Skarphéðinn Freyr Ingason, 31 árs

Friðrik var með 8,2 stig að meðaltali á 19,2 mínútum en hann hitti úr 46,7 prósent þriggja stiga skota sinna og 82,4 prósent vítanna. Ellert var með 3,4 stig að meðaltali á 14,4 mínútum en hann kom aðeins við sögu í 5 leikjanna.

Pálmi Freyr er búinn að skora 7,2 stig og gefa 2,6 stoðsendingar að meðaltali á 18,4 mínútum en hann hefur skorað 21 þriggja stiga körfu sem er það þriðja mesta í liðinu. Skarphéðinn er búinn að skora 5,7 stig og gefa 2,5 stoðsendingar að meðaltali á 13,7 mínútum.


Tengdar fréttir

Njarðvík hefði unnið í oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson tók í dag saman skemmtilegan pistil sem birtur var hér á Vísi þar sem borin voru saman lið Njarðvíkur fyrir 20 árum og svo lið KR í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×